Ferill 471. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1163  —  471. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012 (leiðrétting o.fl.).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásu Ögmundsdóttur og Vöndu Úlfrúnu Liv Hellsing frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
    Frumvarpið felur í sér þrenns konar breytingar. Í fyrsta lagi er lögð til orðalagsbreyting á ákvæði 1. mgr. 6. gr. b laga um loftslagsmál. Breytingin felur í sér að orðið „gróðurhúsalofttegunda“ er fært þannig að ákvæðið mæli fyrir um losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku en ekki losun og upptöku gróðurhúsalofttegunda.
    Í öðru lagi er lagt til að reglugerðarákvæði 27. gr. a laganna verði breytt þannig að ráðherra sé heimilt að mæla fyrir um jöfnunarskyldu flugrekenda samkvæmt CORSIA-kerfi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar í reglugerð. Að lokum er lagt til að reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1416 frá 17. júní 2021 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB að því er varðar að útiloka flug sem kemur frá Bretlandi frá viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir verði innleidd í íslenskan rétt. Með reglugerð (ESB) 2021/1416 er flug frá flugvöllum í Bretlandi til flugvalla innan EES-svæðisins undanskilið frá viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu tæknilegs eðlis sem varðar EES-gerðina. Frumvarpið vísar til ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1416 en með réttu á að vísa til framseldrar reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1416, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 22/2022.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðsins „Ákvörðun“ í 3. gr. komi: Framseldri reglugerð.

    Helga Vala Helgadóttir, Vilhjálmur Árnason og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins og skrifa undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 3. júní 2022.

Orri Páll Jóhannsson,
frsm.
Bjarni Jónsson. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Helga Vala Helgadóttir. Ingibjörg Isaksen. Njáll Trausti Friðbertsson.
Vilhjálmur Árnason. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.